
Cauda Collective er hópur skapandi tónlistarflytjenda sem leita út fyrir rammann í
tónlistarflutningi sínum. Hlutverki flytjandans er ögrað; hann semur líka tónlist, útsetur,
spinnur og vinnur þvert á miðla. Hópurinn leitar nýrra leiða til að túlka gamla tónlist í
samtali við nútímann, gjarnan með hjálp annarra listforma. Cauda Collective hefur
komið fram á Sígildum sunnudögum í Hörpu, Sumartónleikum í Skálholti, Aldrei fór ég
suður á Ísafirði og Centre Pompadour í Frakklandi svo eitthvað sé nefnt. Í starfi Cauda
Collective er lögð áhersla á að vinna náið með tónskáldum og hefur hópurinn frumutt
fjölda nýrra tónverka. Hópurinn vinnur einnig í samsköpun nýjar útsetningar á ýmis
konar tónlist sem ekki tilheyrir klassískri tónlist, má þar nefna samstarfsverkefni með
Mugison á 10 ára afmæli Haglél og hljómplötuna Adest Festum sem kom út árið 2021
og inniheldur nýja nálgun Cauda Collective á einu elsta nótnahandriti Íslands,
Þorlákstíðum. Cauda Collective hefur hlotið fjölda viðurkenninga og styrkja, m.a. úr
Starfslaunasjóði listamanna, Tónlistarsjóði og Styrktarsjóði SUT og RH. Cauda Collective
hlaut tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2021 í flokknum flytjandi ársins,
hópar: sígild og samtímatónlist, og platan Adest Festum hlaut tilnefningu fyrir bestu
plötu í flokki þjóðlagatónlistar.
FYRRI VERKEFNI
STARFSÁRIN 2018-2024
• FERÐALAG TIL FRAKKLANDS OG TUNGLSINS: Residensía í Centre Pompadour í
Frakklandi maí 2018 og tónleikar í Mengi. Flutt voru verk fyrir fiðlu og selló eftir
Maurice Ravel, Halldór Eldjárn og Sigrúnu Harðardóttur.
• NÁTTÚRAN, SÍNUSBYLGJAN OG KRINGLAN: Tónleikar í kapellu Háskóla Íslands 7.
október 2018. Leikin voru verk fyrir fiðlu, selló og segulband eftir Guðna Franzson,
Ríkharð H. Friðriksson, Sigrúnu Harðardóttur og Þórdísi Gerði Jónsdóttir.
• ÓÐUR TIL HAFSINS: Tónleikar í Hafnarborg 9. júní 2019, þar sem flutt var
kammertónlist eftir Sigrúnu Harðardóttur, Toru Takemitsu og Edward Elgar, sem öll
fjalla um hafið. Tónleikarnir fóru fram í leikmynd eftir Evu Björgu Harðardóttur.
• LÍÐUR AÐ TÍÐUM: Tónleikar í Fríkirkjunni í Reykjavík, 23. desember 2019, þar sem
fluttir voru m.a. hlutar úr nýrri tónsmíð eftir meðlimi Caudu Collective byggða á
Þorlákstíðum, auk annarra verka fyrir strengjatríó.
• ÁSTARJÁTNING: Tónleikar á Sígildum Sunnudögum í Hörpu, 1. mars 2020, þar sem
flutt voru kammerverk sem öll voru samin sem einhvers konar ástarbréf. Tónleikarnir
fóru fram í leikmynd eftir Evu Björgu Harðardóttur.
• ADEST FESTUM: Residensía í Skálholtskirkju í júlí 2020 þar sem samið var nýtt
tónverk fyrir strengjatríó byggt á köflum úr Þorlákstíðum. Verkið var hljóðritað í Hörpu
síðar um sumarið og gefið út sumarið 2021.
• AÐ FANGA FRELSIÐ: Tónleikar á Sígildum Sunnudögum í Hörpu, 22. ágúst 2021.
Flutt voru kammerverk sem öll tengjast frelsi eða frelsisssviptingu, þ.e. Kvartett fyrir
endalok tímans eftir Olivier Messiaen (1908-1992), Coming Together (frumflutningur á
Íslandi) eftir Frederic Rzewski (1938-2021) og frumflutt var With All My Love, Art eftir
Ingibjörgu Friðriksdóttur (f. 1989).
• HAGLÉL Í 10 ÁR: Samstarfsverkefni við Mugison þar sem platan Haglél var útsett fyrir
kammersveit og Mugison sjálfan á 10 ára afmæli plötunnar. Tónleikar fóru fram á
Græna hattinum á Akureyri og í Bæjarbíó Hafnarfirði í nóvember 2021. Þá var einnig
gerð heimildarmynd um verkefnið í samstarfi við RÚV.
• CLARA: Nýtt tónleikhús eftir Caudu Collective um líf og starf Clöru Schumann,
píanóleikara og tónskáld. Flutt á tónleikaröðinni Tíbrá í Salnum í Kópavogi 8. mars
2021.
• NÝ PLATA MEÐ MUGISON: Strengja- og bakraddaútsetningar fyrir nýja plötu með
Mugison. Hljóðritað í Sundlauginni sumarið 2022.
• ÖLD VATNSBERANS: Kammertónleikar á tónleikaröðinni Sígildir sunnudagar í Hörpu
5. febrúar 2023. Flutt voru verk sem öll fjalla um stjörnusspeki, þ.e. Tierkreis
(Dýrahringurinn) eftir Karlheinz Stockhausen (1928-2007) auk nýrra verka eftir Finn
Karlsson (f. 1988) og Fjólu Evans (f. 1987). Meðlimir Caudu sáu um útsetningar á
Tierkreis og sátu tónleikagestir í hring utan um flytjendurnar, hver í sæti merktu sínu
stjörnumerki. Flytjendur voru Björg Brjánsdóttir, Björk Níelsdóttir, Grímur Helgason,
Matthias Engler, Sigrún Harðardóttir, Þóra Margrét Sveinssdóttir og Þórdís Gerður
Jónsdóttir.
• SÖNGVAR ÚRSÚLU: Kammertónleikar á tónleikaröðinni Sígildir sunnudagar í Hörpu
17. desember 2024. Flutt voru verkin Adest Festum eftir Sigrúnu Harðaradóttur, Þóru
Margréti Sveinsdóttur og Þórdísi Gerði Jónsdóttur og Changing Light eftir Kaiju
Saariaho. Þá voru frumflutt verkin Þrenning fyrir strengjatríó eftir Svein Lúðvík
Björnsson og Söngvar Úrsúlu eftir flytjendur tónnleikanna en síðara verkið var byggt á
tíðasöngvum Heilagrar Úrsúlu eftir Hildigerði af Bingen. Flytjendur voru Björk
Níelsdóttir, Sigrún Harðardóttir, Þóra Margrét Sveinsdóttir og Þórdís Gerður
Jónsdóttir.
• RAGGA GÍSLA X CAUDA COLLECTIVE: Samstarfsverkefni Caudu Collective við
Ragnhildi Gísladóttur, tónskáld og söngkonu, á Myrkum músíkdögum 26. janúar. Flutt
voru eldri verk eftir Ragnhildi í nýjum útfærslum sem urðu til í samstarfi hennar við
kammerhópinn. Flytjendur voru Ragnhildur Gísladóttir, Björg Brjánsdóttir, Björk
Níelsdóttir, Halldór Eldjárn, Sigrún Harðardóttir, Þóra Margrét Sveinsdóttir og Þórdís
Gerður Jónsdóttir.
• ELDJÁRN X CAUDA COLLECTIVE: Samstarfsverkefni Caudu Collective við bræðurna
og tónskáldin Halldór og Úlf Eldjárn á Sígildum sunnudögum í Hörpu. Frumflutt voru
verk eftir þá báða auk þess sem Owen Hindley sá um myndverk- og myndvörpun
sem var varpað á flytjendurna á meðan á tónleikunum stóð. Flytjendur voru Grímur
Helgason, Guðbjörg Hlín Guðmundsdóttir, Sigrún Harðardóttir, Sólveig Magnúsdóttir
Þóra Margrét Sveinsdóttir og Þórdís Gerður Jónsdóttir.
• STABAT MATER Á 15:15 18. MAÍ 2024: Frumflutningur á Íslandi á fyrri útgáfu Stabat
Mater eftir Boccherini fyrir sópran og strengjakvintett. Einnig flutt ný útfærsla Caudu
Collective af La musica notturna di Madrid fyrir strengjakvintett og slagverk eftir
Boccherini og ný útsetning fyrir strengjakvintett eftir Þórdísi Gerði Jónsdóttur af
Rómönsu fyrir einleiksgítar eftir Miguel Llobet.
• ENDURFUNDIR á Listahátíð í Reykjavík 16. júní og á tónleikahátíðinni Við Djúpið á
Ísafirði 22.-26. júní, JÚNÍ 2024. Samvinnuverkefni við Errata tónskáldahópinn.
Frumflutt ný strengjatríó eftir Halldór Smárason, Hauk Þór Harðarson og Petter
Ekman. Fluttir eldri strengjakvartettar eftir Báru Gísladóttur og Finn Karlsson.
• Þá hefur Cauda Collective einnig tekið þátt í verkefnum eins og Norrænum
músíkdögum í Færeyjum sumarið 2021, Sumartónleikum í Skálholti sumurin 2020 og
2021 og haldið tónleika í Bláu kirkjunni á Seyðisfirði.
VERKEFNI FRAMUNDAN 2024-2025
• ELDBLIK Í HANNESARHOLTI: Eldblik er tónleikaröð Caudu Collective í Hannesarholti.
Á henni er lögð áhersla á að flytja fjölbreytta kammertónlist frá öllum tímabilum
Vestrænnar tónlistarsögu auk þess sem eldri verkum er teflt saman við nýja íslenska
tónlist. Tónleikarnir fara fram í Hljóðbergi, tónleikasal Hannesarholts, þar sem smæð
salarins og nánd áheyrenda við flytjendur mætast í hlýrri hljóðvist rýmisins. Þannig er
löðuð fram einstök stofutónleikastemning. Markmið verkefnisins er að búa til
vettvang fyrir unnendur kammertónlistar til að njóta hennar í litlu rými með fjölbreyttri
dagskrá sem höfðar til fjölbreyttari hóps hlustenda en aðrar sígildar tónleikaraðir. Þá
verður gætt að því að á hverjum tónleikum hljómi verk eftir bæði konur og karla.
• SPEGILL SPEGILL, 27. september 2024: Tónverk eftir Eygló Höskuldsdóttur Viborg
og Jesse Montgomery. Leikin verða strengjakvartettar og dúó fyrir sópran og selló
eftir bæði tónskáldin, sem eiga það sameiginlegt að hafa stundað nám í New York.
Verk Eyglóar Silfra og Kona lítur við einkennast af áferðarfögrum strófum þar sem
flaututónar strengjahljóðfæra eru notaðir á frumlegan hátt. Verk Jesse einkennast af
leikglöðum en kraftmiklum laglínum sem oft eru unnar upp úr spuna.
• STRENGJAFJÖLSKYLDAN, 17. nóvember 2024: Á þessum fjölskyldutónleikum fá
ungu tónleikagestirnir að kynnast hljóðfærunum í Strengjafjölskyldunni í gegnum
tónlist frá ýmsum tímum og skemmtilegar sögur. Í lok tónleikanna er hægt að skoða
hljóðfærin í návígi, spyrja spurninga og prófa að spila!
• FRANSKUR FEBRÚAR, 7. febrúar: Flutt impressjónísk kammertónlist eftir Maurice
Ravel og Lili Boulanger.
• FLXS, 25. apríl 2025. Gjörningaviðburður innblásinn af Flúxus-hreyfingunni þar sem
flutt eru verk fyrir flytjendur án hljóðæra.
• ELDMÓÐIR, 16. maí: 2025: Verk eftir Sóleyju Stefánsdóttir, Svein Lúðvík Björnsson,
Arnold Schönberg og Þuríði Jónsdóttir sem öll fjalla um einhvern hátt um
móðurhlutverkið.
• TÓNLEIKAR Í SALNUM Í KÓPAVOGI:
• ÓVÆNT SVÖRUN, Tíbrá tónleikaröð 24. nóvember 2024: Cauda Collective
frumflytur fjögur ný íslensk verk sem hafa verið samin sérstaklega fyrir hópinn.
Verkin eru öll fyrir sópran og strengjatríó og hafa verið sérstaklega pöntuð af
Cauda Collective af tónskáldunum Hafdísi Bjarnadóttur, Hauk Gröndal, Samúel Jón
Samúelsson og Sigrúnu Jónsdóttur. Tónskáldin sem hópurinn valdi sér hafa
bakgrunn í ólíkum tónlistarstefnum en öll hafa þessi tónskáld tengsl við klassíska
tónlist og hafa lært klassískar tónsmíðar. Rétt eins og kammerhópurinn Cauda
Collective, eru hér tónlistarmenn á ferð sem láta sér ekkert óviðkomandi og semja
tónlist þvert á stíla og stefnur.
• MESSÍAS, 6. desember 2024: Á þessum viðburði verður fluttur fyrsti af þremur
þáttum úr óratoríunni Messías sem Händel skrifaði um líf og dauða Jesú. Fyrsti
hlutinn er endursögn af jólaguðspjallinu og verður á þessum tónleikum fluttur af
fjórum einsöngvurum, sem einnig syngja kórkaflana, auk lítillar kammersveitar. Í lok
tónleikanna gefst gestum tækifæri til að syngja jólasálma ásamt einsöngvurunum
við undirleik hljómsveitarinnar.
• SKJÓL: STRENGIR OG SKINN, 5. apríl 2025: Slagverksleikarinn Kristófer Rodriguez
Svönuson, sem er bæjarlistarlistamaður Kópavogs 2024-2025, efnir til samstarfs við
Caudu Collective þar sem leikin verður tónlist fyrir strengjakvintett og slagverk.
Samstarf Kristófers við hópinn hófst í maí 2024 þar sem Kristófer lék á slagverk í
verkinu Næturtónlist á götum Madrídar eftir Luigi Boccherini. Að þessu sinni leikur
hópurinn verk eftir Kristófer, þróuð í samvinnu við aðra flytjendur tónleikanna.
ÞÁTTTAKENDUR FYRRI VERKEFNA
Agnes Wild: leikstjórn og handritsgerð, Björg Brjánsdóttir: flautuleikur og útsetningar,
Björk Níelsdóttir: söngur, leikur, útsetningar og verkefnastjórn, Borgar Magnason:
kontrabassaleikur, Eva Björg Harðarrdóttir: hönnun útlits, leikmyndar og búninga, Fjóla
Evans: tónsmíðar, Finnur Karlsson: tónsmíðar, Guðbjörg Hlín Guðmundsdóttir:
fiðluleikur, Gunnhildur Daðadóttir: fiðluleikur, Grímur Helgason: klarinettuleikur og
útsetningar, Hafþór Karlsson: hljóðritanir, Haukur Þór Harðarson: tónsmíðar, Halldór
Eldjárn: tónsmíðar, slagverksleikur og myndlist, Halldór Smárason: tónsmíðar, Hrönn
Þráinsdóttir: píanóleikur, Hulda Jónsdóttir: fiðluleikur, Kirsten Brehmer: textagerð og
upplestur, Kristófer Rodriguez Svönuson: slagverksleikur, Ingibjörg Friðriksdóttir:
tónsmíðar og ljósmyndun, Jane Ade Sutarjo: píanóleikur, Jóhann Axel Ingólfssson:
leikari, Juliet Rowland: ljósmyndir, Laura Liu: fiðluleikur, Matthias Engler:
slagverksleikur og útsetningar, Matthías M.D. Hemstock: slagverksleikur, Natalia
Duarte: víóluleikur, Owen Hindley: myndverk og -vörpun, Petter Ekman: tónsmíðar,
Pétur Oddbergur Heimisson: verkefnastjórn, Ragnhildur Gísladóttir: tónskáld og
söngur, Sólveig Magnúsdóttir: flautuleikur, Sigrún Harðardóttir: fiðluleikur, tónsmíðar,
útsetningar, handritsgerð og verkefnastjórn, T.C. Fitzgerald: kontrabassaleikur, Úlfur
Eldjárn: tónsmíðar, Þorgrímur Þorsteinsson: hljóðritun, Þóra Margrét Sveinsdóttir:
víóluleikur, útsetningar og verkefnastjórn, Þórdís Gerður Jónsdóttir: sellóleikur,
tónsmíðar, útsetningar, handritsgerð og verkefnastjórn, Þórunn Harðardóttir:
víóluleikur, Örn Elías Guðmundsson (Mugison): söngur, gítarleikur og útsetningar.